Þingmenn sem þora

OFT hefur manni blöskrað hve skoðanalausir og leiðitamir þingmenn flokkanna eru. Þeir láta flokksforingja sína og/eða ráðherra segja sér fyrir verkum í öllum málum sem nokkru skipta en geysast svo fram með miklar skoðanir og stefnur í tittlingaskítnum. Tveir þingmenn þykir mér þó skera sig úr hvað þetta varðar en það eru þeir Kristinn H. Gunnarsson og Pétur H. Blöndal.

Sterkasta dæmið hjá Kristni er ádeila hans á framgöngu Framsóknar í Íraksmálinu. Fyrst nú eru menn að viðurkenna þau mistök með lófaklappi á landsfundi en enginn annar þingmaður flokksins þorði að andmæla ólýðræðislegum vinnubrögðum formanns flokksins vegna ótta um að falla í ónáð og minnka þar með líkur sínar á að fá embætti ráðherra eða aðrar skrautfjaðrir úr hendi Halldórs.

Pétur hefur oft á tíðum verið á öndverðum meiði við forystu Sjálfstæðisflokksins og oftast hefur það stafað af því að hann hefur góða menntun og kann að nýta sér hana. Aðrir þingmenn flokksins eru flestir með einhverskonar lögfræðimenntun og er reyndar sorglegt að menn skuli ekki sjá þörfina á því þar á bæ að leiða til leiks fólk úr fleiri áttum.

Hverjir mega skipta sér af pólitík?

Það er samt eitt sem skilur þessa ágætu þingmenn sterklega að. Það er að Pétur missir stundum algjörlega jarðsambandið. Þegar forstjóri Baugs lýsti því yfir að það væri ekki rétt að Íslendingar veiddu hvali þá lætur Pétur hafa það eftir sér í sjónvarpi að fyrirtæki eigi ekki að skipta sér af pólitík. Hvernig er það – eru það kannski bara stjórnmálamenn sem mega skipta sér af pólitík? Mega ekki allir hafa skoðanir á pólitískum gjörningum og berjast fyrir breytingum á þann máta sem þeir telja réttastan?

Í framhaldi af þessu væri gaman að fá nánari útlistun frá Pétri hverjir megi ekki hafa skoðanir á pólitík og ég tala nú ekki um hverjir megi ekki berjast fyrir sannfæringu sinni í pólitískum efnum.

Höfundur er kennari við MÍ.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hróðmarsson

Grein þessi var skrifuð fyrir nokkrum mánuðum og ber þess merki. Við höfum nú horft á hvernig stórfyrirtæki eins og Álverið í Straumsvík hefur í krafti mikilla fjármuna ausið yfir Hafnfirðinga vafasömum auglýsingum um ágæti fyrirtækisins. Það er vissulega kominn tími til að setja einhverjar skorður á hvað má í kosningum sem þessum.

Samt er ég enn á því að það er ekkert óeðlilegt við það að Jón Ásgeir segji skoðanir sínar á hvalveiðum alveg eins og Pétur Blöndal. Hann hefur til þess fullt leyfi.

En hvernig eigum við að snúast við því, ef ýmis stófyrirtæki tækju sig saman um að vinna með hvalfriðunarsinnum hér á landi?

Hallgrímur Hróðmarsson, 2.4.2007 kl. 23:15

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Mér finnst bæði gott og gaman að sjá þig hér á blogginu, ágæti Hallgrímur. Jafnvel þó að ég sé þér innilega ósammála í vissum atriðum, og kannski ekki síst þess vegna ...

Hlynur Þór Magnússon, 3.4.2007 kl. 21:44

3 Smámynd: Hallgrímur Hróðmarsson

Takk Hlynur Þór við erum þó allavegana sammála um að það megi viðra allar skoðanir og það sé af hinu góða.

Hallgrímur Hróðmarsson, 10.4.2007 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband