Færsluflokkur: Lífstíll

Hvar er húfan mín?

Fyrir um það bil hálfu ári keypti ég húfu hjá Guðsteini. Dökkbláa, Elbsegler derhúfu með fallegu bandi til skrauts. Ég setti hana upp á dögunum; ég ætlaði niður í bæ og kaupa mér einhverja flík svona í tilefni þess að ég var nýbúinn að fá yfirvinnuna mína borgaða fyrir fyrsta mánuðinn í skólaárinu. Mér fannst ég svo ungur og hress með húfuna og hélt að allir sæju það með mér. Ég leit við í verslun sem selur mikið af fatnaði en þar er reyndar allt til milli himins og jarðar. Þegar ég hafði valið mér flík þá skellti ég henni á borðið hjá afgreiðslumanninum og dró upp kortið mitt til að borga. Hann brosti fallega til mín og snerti aðeins við veskinu mínu eins og hann vildi kíkja í það og hváði: "Ertu kominn með kort". Ég varð ofurlítið hissa og spurði hvort þeir væru farnir að vera með sérstakt afsláttarkort þarna í búðinni. "Neeeiiiiiii", sagði hann ofurlítið óöruggur, "ég meinnti svona heldri borgara kort". Ég held hann hafi séð skelfingarsvipinn á mér því hann bætti snarlega við, "en þú ert vitanlega ekki kominn á þann aldur; ég sé það núna". Þegar ég kom út úr búðinni voru fyrstu viðbrögð mín að taka niður húfuna og setja hana í innkaupapokann. Þegar heim var komið þá hafði ég jafnað mig það mikið að ég ákvað að láta unga manninn ekki koma í veg fyrir að ég notaði húfuna. Ég setti hana því hróðugur upp þegar ég fór næst til Reykjavíkur. Þar spurði ég vini mína hvað þeim fyndist um höfuðfatið. Ég fékk margar skemmtilegar athugasemdir, eins og: Flott og kúl.  Þú ert eins og grískur skipstjóri. Æ, dáldið sveitaleg homma húfa. Það skal tekið fram að ég á dáldið skrýtna og lygna vini. Ja, hvað skal segja; skiptir ekki mestu máli hvað mér finnst? Ég lenti í miklu hvassviðri á leiðinni heim í holuna mína og húfan fauk út í buskann. Ég gæti svo vel farið í Guðstein aftur og keypt mér eins húfu, ef þær eru þá ekki uppseldar, en mig langar í húfuna mína aftur. Þessa einu sem veitti mér alsæluna. Hefur einhver þarna á netinu fundið húfuna mína?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband