Færsluflokkur: Bloggar

Samskipti - þeirra staður er pósthúsið

Ég keypti bókina "The Arkimedes Codex" í virðulegri bókabúð í gær. Alls eyddi ég rúmlega sex þúsund krónum í versluninni þann daginn og síðan kom ég þangað aftur í dag og keypti fyrir rúmar fjögur þúsund krónur. Starfsfólkið báða dagana var alúðlegt og lipurt og þegar ég spurði afgreiðslusveininn sem sinnti mér í dag hvort hann gæti sent fyrir mig afrit af bréfi í faxi þá tók hann því mjög ljúflega. Ég var ekker að skýra það út fyrir honum í smáatriðum að ég væri utan af landi og þyrfti nauðsynlega að koma boðum heim í skólann minn. Maður er ekki að angra fólk með með allt of miklum útskýringum. Hjá okkur stóð afgreiðslumær sem var greinilega að afgreiða erfiðan kúnna í gegnum símann. Hún leitaði með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum á netinu eftir einhverri bók sem ég komst nú ekki að hver var. Þegar hún var búin í símanum þá spurði afgreiðslusveinninn hana að því hvað ég ætti að borga fyrir svona aukaþjónustu. Hún svaraði af bragði að svona þjónustu væri ekki að fá hjá þeim. Þegar hún sá undrunarsvipinn á mér þá sagði hún: "Þú getur farið hérna niður á Hverfisgötu þar er fyrirtæki sem heitir Samskipti". Afgreiðslusveinninn brosti afsakandi til mín þar sem hann hafði lofað upp í ermina á sér. Ég fór út og niður á Hverfisgötu og mikið rétt þarna var fyrirtæki sem hét Samskipti. Þar hitti ég annan afgreiðslusvein og sagði hann mér brosandi að ja þeir væru sko ekki með faxtæki - það væri best að fara niður á pósthún til að fá þetta gert. Á póshúsinu fékk ég þessa líka glimrandi afgreiðslu og þegar konan sagði að þetta kostaði 150 krónur þá sagði ég að það væri nú lítið. Hún svaraði þá að þetta væri jú ódýrara en strætómiði sem reyndar væri hægt að nota aftur ef maður væri nógu snöggur. Sem sagt út úr þessu fékk ég góðan göngutúr um miðborgina og skondin samskipti.

Þingmenn sem þora

OFT hefur manni blöskrað hve skoðanalausir og leiðitamir þingmenn flokkanna eru. Þeir láta flokksforingja sína og/eða ráðherra segja sér fyrir verkum í öllum málum sem nokkru skipta en geysast svo fram með miklar skoðanir og stefnur í tittlingaskítnum. Tveir þingmenn þykir mér þó skera sig úr hvað þetta varðar en það eru þeir Kristinn H. Gunnarsson og Pétur H. Blöndal.

Sterkasta dæmið hjá Kristni er ádeila hans á framgöngu Framsóknar í Íraksmálinu. Fyrst nú eru menn að viðurkenna þau mistök með lófaklappi á landsfundi en enginn annar þingmaður flokksins þorði að andmæla ólýðræðislegum vinnubrögðum formanns flokksins vegna ótta um að falla í ónáð og minnka þar með líkur sínar á að fá embætti ráðherra eða aðrar skrautfjaðrir úr hendi Halldórs.

Pétur hefur oft á tíðum verið á öndverðum meiði við forystu Sjálfstæðisflokksins og oftast hefur það stafað af því að hann hefur góða menntun og kann að nýta sér hana. Aðrir þingmenn flokksins eru flestir með einhverskonar lögfræðimenntun og er reyndar sorglegt að menn skuli ekki sjá þörfina á því þar á bæ að leiða til leiks fólk úr fleiri áttum.

Hverjir mega skipta sér af pólitík?

Það er samt eitt sem skilur þessa ágætu þingmenn sterklega að. Það er að Pétur missir stundum algjörlega jarðsambandið. Þegar forstjóri Baugs lýsti því yfir að það væri ekki rétt að Íslendingar veiddu hvali þá lætur Pétur hafa það eftir sér í sjónvarpi að fyrirtæki eigi ekki að skipta sér af pólitík. Hvernig er það – eru það kannski bara stjórnmálamenn sem mega skipta sér af pólitík? Mega ekki allir hafa skoðanir á pólitískum gjörningum og berjast fyrir breytingum á þann máta sem þeir telja réttastan?

Í framhaldi af þessu væri gaman að fá nánari útlistun frá Pétri hverjir megi ekki hafa skoðanir á pólitík og ég tala nú ekki um hverjir megi ekki berjast fyrir sannfæringu sinni í pólitískum efnum.

Höfundur er kennari við MÍ.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband